Spurt og svarað

Almennt

Hvernig eru tryggingar Elísabetar ólíkar öðrum tryggingum?

Verðið
Verðskrá Elísabetar er allt að 30% lægri.

Sjálfsafgreiðsla
Viðskiptavinur sækir sjálfur um tryggingar hjá Elísabetu og greiðir því ekki sölumanni sölulaun þegar tryggingin er keypt. Viðskiptavinurinn stingur bara þessum sölulaunum í eigin vasa.

Eingöngu kreditkort
Hjá Elísabetu er eingöngu hægt að greiða með kreditkorti. Við þurfum því ekki að bæta sendingar-, prent- og pappírskostnaði við verðið.

Elísabet býður ekki uppá ferðatryggingar
Elísabet selur ekki ferðatryggingar, því þeir sem kaupa tryggingar hjá Elísabetu greiða með korti. Viðskiptavinir Elísabetar eru hvattir til að kynna sér vel ferðatryggingaskilmála kortafyrirtækjanna.

Hvað er Skelin?

Skelin er þitt eigið svæði þar sem þú getur skoðað yfirlit yfir viðskipti þín hjá Elísabetu og nálgast frekari þjónustu eftir þörfum.

Af hverju er eingöngu hægt að greiða með kreditkorti?

Til að auka þægindi og lækka verðið. Með því að hafa mánaðariðgjaldið í sjálfvirkum greiðslum af kreditkortinu er engin hætta á því að þú gleymir að tryggja bílinn og að tryggingin sé fallin úr gildi þegar á reynir. Með þessu getur Elísabet boðið þér lægri iðgjöld því pappírs-, póstburðar- og þjónustugjöld haldast í lágmarki.

Er hægt að greiða með svokölluðum plúskortum?

Elísabet tekur einungis við kreditkortum þar sem greitt er eftir á. Ekki er hægt að greiða með plúskortum, fyrirframgreiddum kortum eða öðrum kortum þar sem þarf að leggja inn á kortin. Ástæðan er sú að ef gleymist að leggja inn á kortin þá næst ekki greiðsla og tryggingar fara í vanskil.

Ég bý úti á landi, get ég tryggt hjá Elísabetu?

Fyrst um sinn er eingöngu hægt að kaupa heimilis-, fasteigna- og brunatryggingar á Reykjavíkursvæðinu en bílatryggingar er hægt að kaupa alls staðar á landinu.

Er hægt að hafa 2 kreditkort hjá Elísabetu?

Einungis er hægt að hafa eitt kort fyrir hverja kennitölu. Ef þú ert með tryggingu nú þegar hjá Elísabetu og slærð inn annað kortanúmer en það sem fyrir er, munu allar tryggingarnar færast á hið nýja kort. Þú getur breytt kortaupplýsingum (og öðrum upplýsingum) í einkasvæði þínu undir Skelinni.

Er hægt að færa tryggingarnar yfir til Elísabetar áður en samningur um aðrar tryggingar er útrunninn?

Algengast er að viðskiptavinir tryggingafélaga séu bundnir í heilt ár. Það þarf því að segja upp tryggingunni hjá gamla félaginu til að hægt sé að gefa út trygginguna hjá Elísabetu. Það er gert með því að fylla út uppsagnareyðublað.

Hvað er biðtrygging?

Biðtrygging er trygging sem bíður þess að vera gefin út (biðtryggingu er þá breytt í gilda útgefna tryggingu). Biðtryggingar myndast þegar sami vátryggði hlutur (bíll/heimili/fasteign) er tryggður á sömu kennitölu annars staðar. Til að hægt sé að gefa út biðtryggingu þarf að skila inn útfylltu og undirrituðu uppsagnareyðublaði a.m.k. 15 dögum fyrir endurnýjun tryggingarinnar sem er í gildi þá stundina. Undantekningar frá því eru ef hluturinn er tryggður hjá Tryggingamiðstöðinni (móður Elísabetar) eða ef verið er að endurskrá bíl eftir að númerin hafi verið lögð inn tímabundið. Þá þarf ekki að skila inn útfylltu uppsagnareyðublaði. Ef trygging hefur verið felld vegna vanskila hjá öðru félagi er ekki hægt að gefa út biðtrygginguna fyrr en gengið hefur verið frá greiðslu á vanskilunum.

Þarf ég að endurnýja trygginguna í hverjum mánuði?

Nei, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að gleyma að borga eða endurnýja trygginguna, því iðgjaldið er tekið sjálfvirkt af kortinu mánaðarlega og birtist á greiðslukortayfirlitinu. Það er hins vegar á þína ábyrgð að kortið sé í lagi og að greiðslur séu heimilar. Það er einnig á þína ábyrgð að láta okkur vita ef þú skiptir um kort. Þú getur skráð nýtt kort á heimasvæði þínu undir Skelinni, undir liðnum kortaupplýsingar.

Tryggir Elísabet mótorhjól eða snjósleða?

Elísabet er með bíladellu og einbeitir sér því að tryggingum og lánum fyrir bíla og jeppa fyrst um sinn. Mögulega bætir hún fleiri flokkum við þegar hún hefur stækkað og dafnað.

Hækkar iðgjaldið ef ég lendi í tjóni?

Elísabet skilur vel að þú getir lent í einu óhappi. Jafnvel tveimur. En ef þú lendir í 3 bílatjónum á 5 árum eða 3 eignatjónum á 2 árum, þá leyfist Elísabetu að grípa í taumana og er Elísabetu heimilt að tvöfalda iðgjald vátryggðs.

Er hægt að skipta um kort á miðju tímabili?

Jú. Þú skráir þig inn undir Skelinni með kennitölu og lykilorði. Undir liðnum Kortaupplýsingar hægra megin getur þú slegið inn nýtt kortanúmer. Athugaðu að hver viðskiptavinur getur einungis verið með eitt kreditkort í gildi í einu. Ef þú ert með fleiri en eina tryggingu færast iðgjöldin af öllum tryggingunum á hið nýja kort frá og með næsta gjalddaga.

Verðið sem er á heimasíðunni, gildir það í heilt ár?

Tryggingarskírteini Elísabetar eru gefin út til mánaðar í senn. Iðgjaldið tekur mánaðarlegum vísitölubreytingum og breytist því í takt við verðlagsbreytingar. Athugaðu að upphæðin á mánuði breytist líka eftir því hversu margir dagar eru í mánuðinum. ( Febrúar er t.d. ódýrari en janúar)

Bílatryggingar

Af hverju er ekki hægt að tryggja kraftmikla litla bíla hjá Elísabetu?

Ástæðan er sú að slíkir bílar hafa reynst mun líklegri til lenda í bótaskyldum tjónum, sem hafa verið mjög kostnaðarsöm og stuðlað að því að verð á tryggingunum hefur hækkað. Með því að sleppa því að tryggja slíka bíla getur Elísabet haldið niðri verðinu öðrum viðskiptavinum. Viðmiðið er að þegar deilt er í hestaflafjöldi bíls, með þyngd bílsins og útkoman er hærri en 0,15 getur Elísabet ekki tekið við honum. Dæmi: 275hestöfl / 1575 kg = 0,175. Slíkur bíll kæmist ekki í gegnum kaupferlið á Elísabet.is.

Tryggir Elísabet vörubílinn minn?

Elísabet einbeitir sér að fólksbílum og jeppum til einkanota. Varðandi tryggingar á vörubílum, sendibílum, leigubílum og annars konar bílum sem notaðir eru í atvinnurekstri vísar hún þér til móður sinnar, Tryggingamiðstöðvarinnar.

Vinur minn lenti í árekstri á bílnum mínum og var í órétti. Nær kaskótryggingin mín yfir það?

Já, kaskótryggingin bætir þér það tjón og vona ég að þið haldið samt áfram að vera vinir.

Er hægt að fella niður trygginguna á meðan bíllinn er á verkstæði?

Já það er hægt, en eingöngu með því að taka númerin af bílnum og skila þeim til Umferðarstofu. Á meðan númerin eru á bílnum verður skyldutryggingin að vera í gildi. Ef bíllinn er veðbandalaus (ekki á láni eða samningi) er hægt að fella kaskótrygginguna tímabundið niður á meðan bíllinn er á verkstæði.

Gildir tryggingin ef ég er á bílnum mínum í útlöndum?

Ábyrgðartryggingin gildir á Íslandi, Evrópska efnahagssvæðinu og í Sviss, en þú verður að fá hjá mér græna kortið, sem er alþjóðlegt skírteini, áður en þú ferð út. Kaskótryggingin gildir eingöngu á Íslandi.

Það var keyrt utan í bílinn minn kyrrstæðan og stungið af. Er ég tryggður gegn slíku?

Já. Kaskótryggingin nær sem betur fer yfir svona leiðindi, þ.e. umfram það sem sjálfsábyrgðin þín bætir.

Get ég kaskótryggt bíl sem er dældaður eða rispaður?

Já, en þegar þú kaskótryggir bílinn ferðu með hann í ástandsskoðun á aðalskrifstofu TM (Síðumúla 24, 108 Rvk) eða næsta útibú TM.

Kaskótryggingin tekur gildi þegar ástandsskoðun er lokið. Ástandsskoðun tekur 1 mínútu og kostar ekkert.

Brunatryggingar

Brunatrygging fasteignar er lögbundin trygging sem bætir tjón á húsnæði vegna eldsvoða. Ef þú ert eigandi fasteignar, íbúðar eða húsnæðis er þér skylt að brunatryggja þá eign. Vátryggingarfjárhæð er í samræmi við brunabótamat hússins sem unnið er af Fasteignamati ríkisins.

Viðbótarbrunatrygging

Ef þú telur að brunabótarmat húseignarinnar, sem framkvæmt hefur verið af Fasteignaskrá Íslands, endurspegli ekki að fullu endurbyggingarkostnað eignarinnar ef til altjóns kæmi vegna bruna, getur þú sótt um viðbótarbrunatryggingu til að brúa það bil sem upp á vantar til að fullar bætur fáist

Fasteignatryggingar

Fasteignatrygging er oft nefnd húseigendatrygging. Hún bætir m.a. tjón á fasteigninni sjálfri, útveggjum, gólfefnum, gleri, hurðum, innréttingum og fleiri naglföstum hlutum sem þú skilur eftir þegar þú flytur. Bótaskyldir tjónsatburðir eru m.a. af völdum vatns, innbrota, skemmdarverka og óveðurs.

Vatnstjón

Fasteignatrygging bætir skemmdir á fasteigninni sem rekja má til vatns úr lagnakerfi hússins, úr þvottavél, uppþvottavél, vöskum eða ofnum.

Innbrot

Fasteignatrygging bætir tjón á húseign af völdum innbrots eða tilraunar til innbrots. Nánari upplýsingar er að finna í skilmálum fasteignatryggingar.

Gler

Fasteignatrygging bætir tjón á venjulegu rúðugleri á útveggjum fasteignar ef það brotnar eða springur eftir að því er endanlega komið fyrir. Þá bætir tryggingin einnig kostnað við að loka fyrir gluggann og ísetningarkostnað. Bætur miðast við venjulegt gler sömu stærðar en ekki skreytt gler.

Fok og óveður

Fasteignatrygging bætir skemmdir á þaki og rúðum fasteignar við fok og óveður.

Brot og hrun

Fasteignatryggingin bætir tjón sem verður ef innanhúsloftklæðning, naglföst innrétting eða hlutar þeirra falla niður vegna skyndilegrar bilunar.

Náttúruhamfarir

Hluti af iðgjaldi brunatryggingar rennur til Viðlagatryggingar Íslands, sem bætir allt beint tjón af völdum náttúruhamfara, svo sem eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða.

Fasteignaskoðun

Áður en fasteignatrygging er gefin út þarf fulltrúi Elísabetar að skoða ástand fasteignarinnar. Ástandsskoðun tekur u.þ.b. 20 mínútur og er fasteignin skoðuð að innan og utan.

Skammtímaálag

Ef fasteignatryggingu er sagt upp innan árs er greitt skammtímaálag. Skammtímaálagi er ætlað að standa straum af kostnaði Elísabetar vegna fasteignaskoðunar. Ef tryggingin er í gildi í lengri tíma en 1 ár áður en henni er sagt upp, er þetta gjald ekki greitt. Skammtímaálag á eingöngu við um fasteignatryggingar.

Heimilistryggingar

Heimilistrygging Elísabetar bætir m.a. tjón á innbúi, tjón af völdum slysa, örorku og andláts í frítíma og bótaskyld tjón sem heimilisfólk veldur öðrum, tjón vegna kortasvika, fjárhagslegt tjón vegna brottflutnings úr húseign og fleira.

Innbústrygging Elísabetar veitir vernd fyrir innbú heimilisins. Hún bætir tjón vegna bruna, vatns, innbrots, þjófnaðar, ráns, skemmdarverka, óveðurs, skammhlaups, brots og hruns ásamt tjóni á innbúi í umferðaróhöppum. Nánari upplýsingar er að finna í skilmálum Elísabetar.

Slysatrygging greiðir bætur vegna slyss (varanlegt líkamstjón, tannbrot, andlát) sem vátryggt heimilisfólk verður fyrir í frístundum, við heimilisstörf og við skólanám. Sjá nánar skilmála heimilistryggingar.

Brottflutnings- og húsaleigutrygging bætir húsaleigukostnað, ef viðskiptavini Elísabetar reynist nauðsynlegt að flytja úr húsnæði vegna bótaskylds tjóns, samkvæmt skilmálum fasteignatryggingar eða brunatryggingar fasteignar.

Greiðslukortatrygging bætir tjón sem hlýst af því að greiðslukort þitt tapast og óviðkomandi aðili notar það með sviksamlegum hætti. Nánari upplýsingar er að finna í skilmálum Elísabetar. Tryggingin gildir jafnt á Íslandi sem og á ferðalögum erlendis og er bótafjárhæð allt að 80.000 krónur á hverju vátryggingartímabili.

Ábyrgðartrygging heimilistryggingar bætir tjón sem heimilisfólk veldur öðrum vegna mistaka eða vanrækslu. Samkvæmt íslenskum lögum bera menn bótaábyrgð á tjóni sem þeir valda öðrum vegna mistaka eða vanrækslu. Hlutverk ábyrgðartryggingarinnar er að greiða skaðabætur fyrir þann vátryggða ef hann hefur bakað sér bótaábyrgð. Ef barn þitt veldur öðrum tjóni, sem ekki er bótaskylt að lögum, bætir tryggingin tjónið, sé barnið yngra en 10 ára. Tryggingin bætir þó ekki tjón á munum sem vátryggður hefur að láni, til leigu eða í geymslu né heldur tjón sem vátryggður veldur sem eigandi eða notandi vélknúins ökutækis, skips, skotvopns eða dýrs.

Þú getur valið að bæta við Tækjakaskó heimilistryggingar sem bætir sérstaklega tjón á sjónvörpum, hefðbundnum tölvum til einkanota, hljómflutningstækjum, myndavélum, upptökutækjum, video og DVD tækjum vegna skyndilegs ófyrirsjáanlegs utanaðkomandi atviks.
Hafa samband